Hlaðvarp um einstaka bækur í hálfrar aldar gamalli ritröð Lærdómsrita Hins íslenska bókmenntafélags.
Þroskasaga Haís Ibn Jaqzan
Jón Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands, ræðir við Eyjólf Kjalar Emilsson, prófessor í heimspeki við Háskólann í Osló, um þýðingu hans á Þroskasögu Haís Ibn Jaqzan eftir Ibn Túfaíl.
12/16/2022 • 43 minutes, 25 seconds
Lærdómsritin: Pyrrhos og Kíneas
Jón Ólafsson ræðir við Móheiði Hlíf Geirlaugsdóttur um þýðingu hennar á ritinu Pyrrhos og Kíneas (Pyrrhus et Cinéas) eftir franska rithöfundinn og heimspekinginn Simone de Beauvoir. Bókin kom upphaflega út í París árið 1944 – skrifuð í hernumdu landi á tímum heimstyrjaldar. Íslenska þýðingin kom út árið 2018.
Pyrrhos og Kíneas er fyrsta heimspekirit Beauvoir og í því má sjá mörg þeirra grunnstefja sem einkenna síðari verk hennar sem betur eru þekkt, svo sem Siðfræði tvíræðninnar (Pour une morale de l'ambiguïté, 1947) og Hitt kynið (Le Deuxième Sexe, 1949). Það er því að mörgu leyti aðgengilegur inngangur að heimspekilegum verkum hennar en um leið sjálfstæð umfjöllun um nokkur grunnstef vestrænnar hugsunar og tilveru.
6/21/2021 • 46 minutes, 17 seconds
Endurtekningin
Jón Ólafsson ræðir við Sigríði Þorgeirsdóttur prófessor í heimspeki og Guðmund Björn Þorbjörnsson dagskrárgerðarmann og doktorsnema í heimspeki um Lærdómsritið Endurtekninguna eftir danska heimspekinginn Søren Kierkegaard sem birtist í ritröðinni árið 2000. Áður hafði Endurtekningin komið út á vegum Helgafells, árið 1966. Þorsteinn Gylfason þýddi verkið og ritaði inngang bæði 1966 og 2000.
Endurtekningin er einstakt verk að flestu leyti – eitt lykilverka Kierkegaards en þó ólíkt öðru sem frá honum kom. Áhrif þess hafa verið samfelld og langvarandi frá upphaflegri útgáfu þess í Kaupmannahöfn árið 1843. Kierkegaard þræðir krákustíga tilvistarlegra spurninga um tengsl okkar við sjálf okkur – um val og athafnir, ósvikna reynslu og ákvarðanir. Endurtekningunni er stillt upp á móti endurminningunni – tilrauninni til að endurvekja draum, frekar en að takast á við lífið.
5/14/2021 • 47 minutes, 36 seconds
Um fagurfræðilegt uppeldi mannsins
Jón Ólafsson ræðir við Gauta Kristmannsson um Lærdómsritið Um fagurfræðilegt uppeldi mannsins eftir Friedrich Schiller sem kom út í þýðingu Þrastar Ásmundssonar og Arthúrs Björgvins Bollasonar árið 2006. Þröstur skrifar einnig inngang.
Rit þýska skáldsins Fredrichs Schiller Um fagurfræðilegt uppeldi mannsins vakti mikla athygli þegar það birtist fyrst í þremur hlutum í tímaritinu Die Horen árið 1795. Verkið, sem skiptist í 27 bréf, mótast af heimspeki Kants annarsvegar, frönsku byltingunni hins vegar, en í því færir Schiller rök fyrir því að ímyndunarafl og sköpunargáfa – í einu orði leikurinn – sé ekki aðeins mikilvæg viðbót við skilningsgáfu mannsins, heldur forsenda mennskunnar. Fagurfræði Schillers undirstrikar líka pólitíska greiningu hans á samtíðinni, því hann gerir sér ljóst að upplýsingin, heimspeki Kants og franska byltingin getur haft hinar verstu afleiðingar fyrir samfélagið fái sköpun og listir ekki að dafna.
1/21/2021 • 39 minutes, 4 seconds
Dýralíf
Í öðrum þætti hlaðvarps Lærdómsrita er fjallað um Dýralíf eftir J.M. Coetzee sem kom út hjá Lærdómsritunum í haust. Ritstjórinn Jón Ólafsson, ræðir við Gunnar Theódór Eggertsson, höfund inngangs bókarinnar um efni hennar og almennt um vaxandi umræðu samtímans um dýravernd og réttindi dýra.
Í þættinum er vísað í tvær eftirfarandi vefslóðir:
Viðtal við þýðendur verksins, þau Gunnar Sigvaldason og Katrínu Jakobsdóttur, í Lestinni: www.ruv.is/utvarp/spila/lestin/23619/7hr8nv (hefst á 29:08). Upplestur tveggja stuttra brota úr verkinu á Facebooksíðu Bókmenntaborgarinnar: www.facebook.com/201991723196411/…/705106650134532 (lestur úr Dýralífi hefst á 29:15)
12/18/2020 • 44 minutes, 7 seconds
Minnisblöð Maltes Laurids Brigge
Hugvísindasvið Háskóla Íslands og Hið íslenska bókmenntafélag standa saman að hlaðvarpinu Lærdómsrit þar sem fjallað er um einstök verk í þessari hálfrar aldar gömlu ritröð. Jón Ólafsson, prófessor við Hugvísindasvið og ritstjóri Lærdómsritanna, stýrir umræðum og fær til sín gesti sem ýmist fjalla um einstakar bækur, lesa úr verkunum eða ræða um efni sem tengjast einstökum ritum. Í þessum fyrsta þætti ræðir Jón við Svanhildi Óskarsdóttur og Benedikt Hjartarson um nýjustu bókina, Minnisblöð Maltes Laurids Brigge eftir Rainer Maria Rilke, en það er 100. verkið sem kemur út á vegum Lærdómsritanna. Benedikt þýddi ritið og skrifaði inngang og skýringar.